
Nú hafa verið settar upp myndir úr fórum afkomenda Ingimars Jónssonar sem byggði húsið. Með myndunum er verið að segja sögu hússins og fólksins sem var þar í upphafi. Þær eru fyrst og fremst á efri hæðinni eða í Rannveigarstofu sem kennd er við nöfnur sem bjuggu í húsinu frá upphafi Rannveigu Bjarnadóttur og Rannveigu Ingimarsdóttur.
Meðfylgjandi mynd er af Ingimar Jónssyni og Helgu Jónatansdóttur. Húsið er kennt við Ingimar Jónsson, söðlasmið, f. 1885 d. 1930, kona hans var Helga Jónatansdóttir, f. 1886 d. 1933. Ingimar byggði húsið og var það fullgert 1916. Áður hafði Jón Þ. Kristjánsson fengið leyfi til að byggja þar gripahús 1911 og eru undirstöður hússins að nokkru leyti frá þeim tíma. Ingimar fær leyfi bæjaryfirvalda til að breyta gripahúsinu í söðlasmiðju og íbúðarhúsnæði fyrir fjölskyldu sína. Þar rak hann söðlasmiðja og bólstrun en seinna voru þar gullsmiður og skósmiður. Afgreiðslan á neðri hæðinni ber þess merki að hafa verið smiðja í eina tíð.
